Nýjar áherslur á gamalgrónum veitingastað

Alexander Alcivar á Selfossi hefur keypt tæki og búnað veitingastaðarins Hróa hattar á Selfossi og mun opna nýjan og breyttan stað í þessari viku.

Jón Birgir Kristjánsson og Sigríður G. Björnsdóttir sem rekið hafa Hróa hött við Austurveg á Selfossi undanfarin fimmtán ár hættu rekstri staðarins síðastliðið sunnudagskvöld og var staðnum lokað tímabundið í gær.

„Við munum halda Hróamerkinu fyrir pizzurnar til að byrja með en munum stækka matseðilinn og auka fjölbreytnina til muna með sérstaka áherslu á sushi. Einnnig mun staðurinn fá ágætis andlitslyftingu auk þess sem hann fær nýtt nafn í framhaldinu,“ sagði Björn Þór Baldursson í samtali við sunnlenska.is en hann verður yfirkokkur og stjórnandi á staðnum í félagi við Alexander.

Þeir hafa mikla reynslu af sushigerð en þeir ráku verksmiðju í Hveragerði fram í júní á síðasta ári sem framleiddi sushi fyrir stórmarkaði eins og Krónuna, Nettó og Samkaup.

„Ef allt gengur upp þá munum við opna aftur síðdegis á morgun, miðvikudag, eða í síðasta lagi á fimmtudag. Þá verður opnað í þeirri mynd sem var. Fljótlega í næstu viku munum við hafa lokið breytingum á eldhúsi og bætt við okkur tækjakosti fyrir sushi eldhúsið þannig að viðskiptavinirnir munu fljótt verða varir við breytingarnar,” sagði Björn Þór ennfremur.

Að sögn Björns verður fyrrum starfsmönnum Hróa hattar boðin vinna á nýja veitingastaðnum.

Fyrri greinFormannsskipti hjá Baldri
Næsta greinSelfoss tapaði fyrir botnliðinu