„Nýja staðsetningin breytir öllu“

„Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar,“ segir Marinó Magnús Guðmundsson, verslunarstjóri Rúmfatalagersins á Selfossi.

Síðastliðinn föstudag opnaði Rúmfatalagerinn nýja og glæsilega verslun í Kjarnanum á Selfossi en verslunin var áður til húsa að Austurvegi 69.

„Þessi helgi var alveg ótrúleg. Við gáfum fyrst fimmtíu kodda og svo aðra fjörutíu til viðbótar. Það var röð út úr dyrum þegar við opnuðum og anddyrið var pakkfullt,“ segir Marinó en fyrstu viðskiptavinirnir fengu gefins kodda frá versluninni.

„Nýja staðsetningin breytir nánast öllu. Það er til dæmis mun meira rennerí af fólki. Eins er áberandi mikið af erlendum ferðamönnum sem eru kannski að versla í Krónunni og koma svo við hjá okkur,“ segir Marinó.

Marinó segir að viðskiptavinir séu mjög ánægðir með nýju staðsetninguna. „Fólk er gríðarlega sátt með nýju búðina og hafa viðskiptavinir mikið verið að óska okkur til hamingju með opnunina,“ segir Marinó að lokum.

Í tilefni af opnuninni gaf Rúmfatalagerinn Ljósheimum á Selfossi þrjá nýja rafmagnshægindastóla.