Nýja móttökuhúsið komið á Litla-Hraun

Í vikunni var sett niður nýtt móttökuhús við fangelsið á Litla-Hrauni. Húsið var smíðað á Selfossi og flutt niður Flóann á vagni.

„Móttökuhúsið á að nota undir aðgangseftirlit fyrir þá sem eiga erindi inn í fangelsið, gesti fanga og aðra sem þangað koma. Jafnframt fer þar fram leit í sendingum til fanga. Húsið verður búið biðstofu með geymsluskápum, leitarsal fyrir gegnumlýsingartæki og málmleitarhlið, ásamt sérstöku leitarherbergi og rými til að skrá og leita í sendingum ásamt móttöku/varðstofu,“ segir Eyrbekkingurinn Halldór Valur Pálsson, starfsmaður Fangelsismálastofnunar.

„Með tilkomu hússins er hægt að bæta aðgangseftirlit til muna en hingað til hefur allt eftirlit með gestum og sendingum farið fram eftir að viðkomandi er kominn inn á fangelsissvæðið,“ segir Halldór Valur og bætir við að húsið sé hluti af áætlun Litla-Hrauns og Fangelsismálastofnunar í að efla öryggi og ytri umgjörð fangelsisins.

„Í framhaldi af tilkomu hússins er jafnframt verið að vinna að uppsetningu öflugri öryggisgirðinga utan um helstu útivistarsvæði fangelsisins sem mun einnig breyta ásýnd fangelsisins.“

Fyrri greinSætur sigur að Hlíðarenda
Næsta greinFirmakeppni í Hamarshöllinni