Nýja brúin yfir Varmá opnuð fyrir umferð

Veglegur reiðstígur liggur undir brúna. Ljósmynd/Vegagerðin

Ný brú yfir Varmá, austan við Hveragerði, var opnuð fyrir umferð síðastliðinn föstudag. Gatnamótum Suðurlandsvegar við Grænumörk hefur verið lokað en í staðinn kemur ný tenging Suðurlandsvegar við Þelamörk. Bygging brúarinnar er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Hveragerðisbæjar.

Verkið var boðið út í nóvember 2021 en verktaki er Loftorka Reykjavík. Lagður hefur verið nýr 780 metra langur vegur frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir austan Varmár. Nýja brúin er eftirspennt plötubrú í þremur höfum 47,8 m löng og 14,6 m breið. Gert er ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi yfir brúna og ríðandi umferð undir hana.

Varmá er á náttúruminjaskrá. Þar er töluverð fiskgengd og því var reynt að valda sem minnstu raski á árfarveginum á framkvæmdatímanum. Til að mynda var aðeins leyfilegt að vinna í árfarveginum frá 30. desember 2021 til 1. apríl 2022 með tilliti til veiðitíma og göngutíma laxa.

Gert er ráð fyrir umferð akandi, gangandi og hjólandi yfir brúna. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri greinElvar magnaður í stórsigri Íslands
Næsta greinSterk liðsheild skóp góðan sigur