Nýja brúin vígð í blíðskaparveðri

Innviðaráðherra, forstjóri Vegagerðarinnar og sveitarstjórar Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra klipptu á borðann. Ljósmynd/Vegagerðin

Ný brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi var vígð síðastliðinn föstudag þegar Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings eystra klipptu á borða í blíðskaparveðri á miðri brúnni.

„Með opnun brúarinnar leysum við af hólmi síðustu einbreiðu brúna á Hringvegi 1 frá Reykjavík austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Fyrir fjórum árum síðan, voru 37 brýr á Hringveginum einbreiðar, nú eru þær 32 og verða 31 við opnun nýrrar brúar í dag. Og það er ekkert lát á framkvæmdum. Ég er vongóður um að okkur takist að fækka þeim niður í 29 strax fyrir árslok því það stendur til að opna nýjar brýr á Hverfisfljóti og Núpsvötnum síðar á árinu,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.

Orgar eins og gráðugt villidýr
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sagði einnig nokkur orð og las meðal annars hluta úr ritgerð Jóns Trausta sem hann skrifaði í upphafi 20. aldar og lýsa vel hversu illan bifur fólk hafði á Jökulsá á Sólheimasandi sem var mikill farartálmi og heimti mörg líf þar til hún var fyrst brúuð árið 1921.

„Hún er samfelldur, beljandi straumstrendur frá jöklinum og fram í sjó, þar sem hún tekur brimrótið fangabrögðum. Alla þá leið orgar hún eins og gráðugt villidýr og byltir til stórum jökulhnullungum í botninum. Vatnið er móbrúnn jökulkorgur, svo þykkur, að öldurnar geta varla freytt, og svo draunillur, að fýluna af honum leggur vestur á miðjan sand. Hvergi er vað á henni, sem treysta má. Hún kastar beljandi höfuðstrengnum sitt á hvað og rótar til mölinni undir sér; grefur sig niður á þessum staðnum, hleður upp eyrum annars staðar, rennur sums staðar dreift, en sums staðar í einu lagi. Aldrei er hún eins degi lengur.“

Hörður ennþá á Z-25
Að lokinni vígslunni ók Egill Magnússon, ráðherrabílstjóri, Sigurði Inga fyrstum yfir brúna en strax á eftir þeim kom Hörður Brandsson, sem fyrstur ók yfir brúna sem opnuð var árið 1967. Hörður er enn með sama bílnúmerið og var á bílnum sem ók yfir á sínum tíma, Z 25. Þess má geta að Hörður er sonur hins víðfræga Brands Stefánssonar eða Vatna-Brands sem var mikill brautryðjandi í samgöngumálum Vestur-Skaftfellinga. Hann keypti fyrst bíl árið 1927 og hóf stuttu síðar farþegaflutninga milli Víkur og Markarfljóts þar sem fólk var reitt yfir á hestum.

Heiðursmenn Páll Andri Sveinsson, Guðmundur Kristján Ragnarsson og skæravörður Diljá Mist Guðnadóttir. Ljósmynd/Vegagerðin
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra með Herði Brandssyni sem fyrstur ók yfir aðra brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi árið 1976. Ljósmynd/Vegagerðin
Ráðherra fer fyrstur yfir brúna og þar á eftir Hörður á Z-25. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri greinGlæsilegt félagsheimili SVFS heitir Víkin
Næsta greinLíf og fjör í sveitarfélaginu okkar