Nýja borholan skilar vatni í vinnanlegu magni

Borholan SE-45 skilar 15-20 sekúndulítrum af 70°C heitu vatni. sunnlenska.is/Sigurdór Örn Guðmundsson

Komið hefur í ljós að heita vatnið sem fannst í byrjun mars í borholunni SE-45 við Selfossveg á Selfossi er í vinnanlegu magni og verður því hafist handa við að virkja holuna.

Að sögn Sveins Ægis BIrgissonar, formanns eigna- og veitunefndar Árborgar, er holan að gefa 15-20 sekúndulítra af um það bil 70°C heitu vatni.

„Það getur tekið allt að einu ári að fá þetta vatn inn á kerfið. Það tekur tíma að fá dælur og hanna dæluhúsið og það verður að sjálfsögðu hannað þannig að það falli sem best inn í umhverfið,“ sagði Sveinn Ægir í samtali við sunnlenska.is.

Þrátt fyrir að heitt vatn hafi fundist verður rannsóknarborunum haldið áfram og næsta borun verður við Sóltún, aðeins sunnar við árbakkann og þar er búið að gera borplan og framkvæmdir að hefjast.

„Einnig erum við í stórum framkvæmdum við bakka Ölfusár í kringum Hótel Selfoss. Í fyrra fundum við 30 sekúndulítra af 90°C heitu vatni í nýrri holu á Fossnesi fyrir utan á. Nú er unnið að því að leggja lögn frá holunni og undir Ölfusárbrú. Síðan verður lögð ný lögn frá brúnni, meðfram Selfossvegi út að kirkju og síðan út á Eyraveg þar sem hún kemur inn í veitukerfið. Seinna mun þessi lögn tengjast nýju holunni við Selfossveg,“ segir Sveinn Ægir og bætir við að talsvert rask verði við Selfossveg í sumar og fram á haust.

„Það er alveg viðbúið að þetta svæði verði vinnusvæði fram eftir árinu en við leggjum mikla áherslu á að það verði gengið frá öllu á snyrtilegan hátt að lokum, þannig að þessi hluti bæjarins verði fallegur áningarstaður eins og áður.“

Fyrri grein„Nærandi að eiga góðar vinkonur sem brenna fyrir listsköpun“
Næsta greinMáni með tvö í sigri Hamars