Nýir samningar við Neyðarlínuna undirritaðir

Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar og Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, undirrituðu samningana. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Dómsmálaráðuneytið og Neyðarlínan skrifuðu á dögunum undir þjónustusamninga til fimm ára um samræmda neyðarsvörun og rekstur Tetra öryggis- og hópfjarskiptaþjónustu fyrir Ísland.

Markmið með Tetra öryggis- og fjarskiptaþjónustu er að tryggja örugg fjarskipti um land allt og þau fjarskipti sem þurfa að vera til staðar á tímum neyðar vegna slysa, náttúruhamfara eða hamfara af mannavöldum.

Markmið með vaktstöð fyrir samræmda neyðarsvörun fyrir Ísland er að sinna viðtöku tilkynninga um fólk, eignir og umhverfi í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og sjúkraflutningaliðs og aðra neyðaraðstoð.

Neyðarlínan hefur sinnt samræmdri neyðarsvörun og númerinu 112 frá árinu 1996 og Tetra frá 2006 þegar fyrsti sameiginlegi samningurinn var gerður. Höfuðstöðvar Neyðarlínunnar eru í Skógarhlíð 14 í Reykjavík í tengslum við stjórnstöð almannavarna, en hjá Neyðarlínunni eru 44 starfsmenn.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar undirrituðu samningana á 112-deginum, 11. febrúar.

„Mér verður reglulega hugsað til þess að haustið 1995 voru hér 146 neyðarnúmer, þar sem fólk í neyð þurfti að hringja í mismunandi símanúmer eftir því hvar það var statt og hvers eðlis neyðin var. Það var ekki sama númerið fyrir slys, eldsvoða eða veikindi. Það var mikið framfaraskref sem tekið var 1. janúar 1996 þegar við tókum upp neyðarnúmerið 112, sama neyðarnúmer og er í öðrum Evrópulöndum og gildir þá einu hvers konar neyð ber að höndum,“ sagði Þórhallur þegar skrifað var undir samninginn.

Fyrri greinSamið um tilraunaverkefni um snjallar úrgangslausnir
Næsta greinSveitarfélagið mun fylgja málinu fast eftir