Nýir krossar á leiði skipverja af Loch Morar

Í morgun voru settir nýir krossar á grafir sex sjómanna sem fórust í strandi skoska togarans Loch Morar útaf Gamla-Hrauni við Eyrarbakka þann 31. mars 1937.

Um borð var 12 manna áhöfn og fórust allir. Lík sex skipverja rak á land við Eyrarbakka þar sem þeir voru jarðaðir, án þess að kennsl væru borin á líkin. Hinir sex hvíla í votri gröf.

Á sínum tíma voru settir einfaldir hvítir trékrossar á leiði sjómannanna. Gunnar Ólsen, vegaverkstjóri frá Eyrarbakka, var sex ára þegar togarinn strandaði við Eyrarbakka og er atburðurinn honum í fersku minni. Gunnar hefur fylgst með leiðum sjómannanna og séð um viðhald á þeim alla tíð. Síðasta sumar pússaði hann meðal annars og lakkaði krossana sem voru farnir að fúna og því fannst honum rétt að smíðaðir yrðu nýir krossar á leiði sjómannanna.

Leitað var til breska sendiráðsins á Íslandi sem greiddi fyrir gerð nýrra krossa sem settir voru á leiðin í morgun og aðstoðaði breski sendiherrann á Íslandi, Ian Whitting, við krossaskiptinguna.

Togarinn Loch Morar var nefndur eftir dýpsta stöðuvatni Bretlandseyja og jafnframt fimmta stærsta stöðuvatni Skotlands. Togarinn þótti sterkbyggður og skipverjarnir þaulvanir sjómenn. Áður en Loch Morar fór frá Aberdeen 22. mars, áleiðis til Íslandsmiða, hafði farið fram skoðun á skipinu og allt verið gert til að búa það sem best. Haugabrim og dimmviðri var þegar skipið strandaði á Hrauntangaskerjum, um 1,5 km frá ströndinni.