Nýir eigendur að Vélaverkstæði Þóris

Vélaverkstæði Þóris á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Vélaverkstæði Þóris ehf. á Selfossi hefur fengið nýja eigendur. Fyrirtækið sem hefur verið í eigu Þóris L. Þórarinssonar og Ásdísar Svölu Guðjónsdóttur frá stofnun þess fyrir um 30 árum, hefur verið selt til UK fjárfestinga ehf. Þau Þórir og Ásdís hverfa nú úr eigendahópnum eftir áratuga farsælan rekstur.

UK fjárfestingar, sem meðal annars eiga Toyota á Íslandi og Bílanaust og er í eigu Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar, ætla sér að viðhalda starfseminni í þeirri mynd sem hún hefur verið, en jafnframt auka enn frekar þjónustu við hina fjölmörgu viðskiptavini verkstæðisins. Það mun áfram sinna viðhaldi og viðgerðum á vinnuvélum, landbúnaðartækjum og vörubílum í framúrskarandi aðstöðu að Austurvegi 69 á Selfossi, auk þess að veita þjónustu um allt land.

Kári Rafn Þorbergsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Vélaverkstæðis Þóris ehf. Kári er menntaður rafvirki, vélfræðingur og rekstrarfræðingur. Hann er í sambúð með Lóu Dagmar Smáradóttur. Þau búa á Hellu þar sem þau eru bæði fædd og uppalin. Starfsmannahópurinn, sem telur 25 reynslumikla einstaklinga, helst að öðru leyti óbreyttur.

Fyrri greinEinföld og ljúffeng styrktarsala fyrir SKB
Næsta greinHæstiréttur staðfestir ógildingu virkjanaleyfis Hvammsvirkjunar