Nýi vegurinn opnaður fyrir umferð

Lyngdalsheiðarvegur verður líklega opnaður fyrir umferð í þessari viku. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um formlega vígslu heldur verða lokunarskilti einfaldlega tekin niður.

Nú er m.a. unnið að því að setja stikur meðfram veginum auk þess sem nokkur frágangsvinna er eftir utan vegar sem fer langt með að klárast í næsta mánuði ef vel viðrar.

Til stóð upphaflega að opna Lyngdalsheiðarveg fyrir umferð 15. september en vegna vandræða verktaka varð ekki af því. Klæðing ehf. var upphaflega aðalverktaki en hvarf svo frá og þá tók Vélaleiga AÞ ehf. við verkinu en þeir höfðu áður verið undirverktakar.

Heildaruppgjör liggur ekki fyrir en kostnaður verður eitthvað yfir upphaflegri áætlun, fyrst og fremst vegna verðbóta þar sem verkið var boðið út í apríl 2008 fyrir hrunið að sögn Svans G. Bjarnasonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar.