Nýi miðbærinn opnar „mjúklega“

Það var iðandi mannlíf og góð stemmning á Brúartorginu fyrir utan Mjólkurbú Flóamanna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Starfsemi í fyrri áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi er að fara í gang núna um helgina og verslanir og veitingastaðir að opna fyrir gestum og gangandi. Sunnlenska.is leit við í nýja miðbænum eftir hádegi í dag og var hann strax farinn að iða af lífi.

Um reynsluopnun, eða “soft opening” er að ræða. Framkvæmdir við fyrri áfanga miðbæjarins eru langt komnar og þó ekki séu öll húsin þrettán fullbyggð og ýmis handtök eftir í umhverfisfrágangi var það vilji allra aðstandenda að fá álit bæjarbúa og annarra, og slípa reksturinn til í samstarfi við gesti næstu daga og vikur.

Þær verslanir sem opna núna í hinu nýja Brúarstræti á Selfossi eru Penninn/Eymundsson, Flying Tiger Copenhagen, 1905 Blómabúð,  Listasel Gallerí og jólabúðin Mistilteinn. Stærsta verslunin við götuna, tísku og hönnunarverslunin Motivo opnar innan tíðar líkt og ísbúð Kjörís, Miðbæjarís og fleiri verslanir.

Í matarmenningarsetrinu í hinu glæsilega endurreista húsi Mjólkurbús Flóamanna eru átta veitingastaðir að hita upp í grillum, ofnum og pottum og pönnum. Þeir eru; Samulesson Matbar, Flatey Pizza, Smiðjan Brugghús, Menam, Romano Pasta Street Food, El Gordito Taco, Dragon Dim Sum og síðan Ísey skyr bar sem rekin er samhliða Skyrlandi, metnaðarfullri upplifunarsýningu um íslenska skyrið.

Nokkrar verslanir hafa þegar opnað við Brúarstræti og fleiri eru væntanlegar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinLétu drauminn rætast og opnuðu vinnustofu á Selfossi
Næsta greinÍslandsferð Team Rynkeby hefst á Selfossi