„Nýi meirihlutinn skelfilegur“

Gunnar Örn Marteinsson, fyrrverandi oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir að nýi meirihlutinn í hreppnum sé skelfilegur í ljósi þess hve ólíka stefnu listarnir sem mynda hann hafa haft.

Samherjar Gunnars á K-listanum, Jón Vilmundarson og Harpa Dís Harðardóttir, samþykktu vantrauststillögu á Gunnar Örn sem oddvita á hreppsnefndarfundi á mánudag, ásamt Skafta Bjarnasyni af E-lista og Oddi Bjarnasyni af N-lista. Skafti er nú orðinn oddviti og Oddur varaoddviti.

„Mér þykir auðvitað miður að þetta skyldi þróast með þessum hætti. Ég tel að þau (Jón og Harpa Dís) hafi unnið á bakvið mig, en ekki haft samráð við listann,“ sagði Gunnar Örn í samtali við Sunnlenska.

Hann viðurkennir að einhver kergja hafi verið í samstarfinu að undanförnu og mögulega hafi deilan um leyfisveitingu fyrir minkabúinu í Ásum verið kornið sem fyllti mælinn, en Gunnari var misboðið að samstarfsfólk sitt á listanum hafi lagt út í kostnað við að fá annan lögfræðing til að gera skýrslu um heimild til að reisa hið umdeilda minkabú, án vitneskju hans eða sveitarstjóra.

„En ég var búinn að bjóða þeim að landa þeim málum og auk þess reiðubúinn að fara í frí frá störfum tímabundið ef það mætti lægja öldurnar,“ segir Gunnar. Mér finnst þessi nýi meirihluti skelfilegur í ljósi þess hve ólíka stefnu listarnir hafa haft,“ segir hann. „K-listinn vann hér yfirburðasigur, m.a. með það stefnumið að ég yrði oddviti,“ segir Gunnar jafnframt. „En ég geng stoltur frá mínum störfum sem oddviti og er ekki hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum.“

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinÓmar ekki í bann
Næsta greinAðventa á Fjöllum