Nýi Hamar formlega vígður

Nýtt verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands, nýi Hamar, var vígt formlega í gær við hátíðlega athöfn. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara, lykil að byggingunni.

Séra Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur Selfosskirkju blessaði húsið og Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, flutti ávarp. Þá afhenti Héraðsnefnd Árnesinga skólanum peningagjöf til kaupa á trágróðri sem plantað verður á lóð hússins.

Aðdragandinn að byggingunni var langur en fyrsta skóflustungan var tekin í júlí árið 2015. Tark teiknistofa hannaði húsið en JÁVERK á Selfossi sá um bygginguna auk undirverktaka. Fjöldinn allur af verktökum kom að byggingunni á einn eða annan hátt, t.a.m. sá Fossraf um rafkerfið og ÞH blikk um loftræstikerfin.

Húsið uppfyllir mikla uppsafnaða þörf og eykur til muna möguleika á mun betra og tæknivæddara námi í iðn- og verkgreinum á Suðurlandi. Húsið er útbúið nýjum, fullkomnum búnaði sem færir skólann uppá nýtt plan og nær nútímanum.

Hér fyrir neðan má sjá nýja Hamar rísa á 30 sekúndum.


Verknámshúsið Hamar. Ljósmynd/FSu