Nýbyggður skóli of lítill fyrir sveitarfélagið

Nemendur 9. og 10. bekkjar Grunnskólans Ljósuborgar á Borg í Grímsnesi munu áfram stunda nám við Grunnskóla Bláskógabyggðar í Reykholti skv. samkomulagi Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar.

Til stóð að eftir þetta skólaár myndi samstarfið fjara út þannig að nýir bekkjarárgangar sæktu ekki nám í Bláskógabyggð.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, sagði í samtali við Sunnlenska að ljóst væri að Ljósaborg hefði ekki rými fyrir 9. bekk næsta árs og því yrði óskað eftir framlengingu á samstarfi skólanna í a.m.k. 2 ár.

Sagði Gunnar að vinnuhópur væri nú önnum kafinn við að móta framtíðarstefnu sveitarfélagsins í skólamálum og enn væri allt opið þar en lét þess þó getið að vinnuhópurinn hefði skoðað sameiginlegan rekstur skóla og leikskóla í Reykjavík og hrifist af slíkum starfsháttum.

Á meðal hugmynda sem vinnuhópurinn er að skoða eru m.a. flutningur skrifstofurýmis annað, að leikskólinn og grunnskólinn deildu saman húsnæði, skólinn yrði stækkaður svo pláss væri fyrir eldri bekkinga og framkvæmdir sem hugsanlega yrði ráðist í væru áfangamiðaðar svo að ekki væri um of umfangsmiklar framkvæmdir í einu.

Fyrri greinÁ bolfiskveiðum fram í apríl
Næsta greinVarað við stormi í kvöld og í nótt