Nýburum fækkar milli ára

Á síðasta ári komu 248 nýir Sunnlendingar í heiminn en árið 2009 voru þeir 267. Þetta er fækkun á milli ára um 7,1%.

Sveiflur hjá sveitarfélögunum eru í flestum tilvikum litlar milli ára. Þó vekur athygli að barnsfæðingum fækkar um rúm 73% í Hrunamannahreppi. Fjórir nýir Hrunamenn fæddust á síðasta ári en þeir voru fimmtán árið 2009. Líklegt má því telja að átak fræðslunefndar Hrunamannahrepps vorið 2008 um að Hrunamenn “leggist á eitt” og fjölgi hreppsbúum hafi skilað tilætluðum árangri sem skýrir fjöldann árið 2009.

Einnig er áberandi niðursveifla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem nýburum fækkar um 54,5%, voru 5 árið 2010 en 11 árið 2009. Í Skaftárhreppi fækkar um helming, úr fjórum börnum 2009 í tvö árið 2010.

Mesta tölulega fjölgunin er í Árborg þar sem 111 börn fæddust, fimm færri en árið áður. Í Rangárþingi eystra fjölgaði um rúm 56% milli ára, þar fæddust 25 börn árið 2010 miðað við 16 árið áður.

Hvergerðingar voru líka duglegir að fjölga sér, þar fæddust 30 börn í fyrra en 22 árið áður.