Ný verksmiðja Límtrés reist á Flúðum

Límtré Vírnet hyggst byggja 2700 fermetra verksmiðjuhúsnæði við hlið núverandi Límtrésverksmiðju í Torfdal við Flúðir. Hefur Hrunamannahreppur úthlutað fyrirtækinu um 4-5.000 fermetra lóð undir húsnæðið.

„Já, við erum að fara út í heilmiklar framkvæmdir á Flúðum,“ sagði Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við Sunnlenska. Í nýja húsnæðinu verður ný steinullarlína frá Suður-Kóreu, sem kostar um tvöhundruð milljónir króna.

„Helstu kostir nýju línunnar eru möguleiki á framleiðslu trapisueininga, stóraukin framleiðslugeta, einfaldari og styttri meðhöndlunartími, betri tæknilausnir varðandi límingu, völsun og betri lásar. Þetta er hagkvæmari framleiðsla sem þýðir lægri framleiðslukostnaður og að afgreiðslufrestur styttist og samkeppnishæfni stóreykst,“ segir Stefán Logi.

Yleiningarverksmiðjan í Reykholti verður rekin áfram með óbreyttu sniði á meðan á uppbyggingu nýrrar verksmiðju stendur yfir, m.a. til að geta af fullum krafti sinnt framleiðsluþörf í verkefnum fyrirtækisins. Að sögn Stefáns verður húsnæðið í Reykholti væntanlega selt, en mögulega verður annarri starfsemi á vegum Límtrés þar fundinn staður.

„Tímaáætlun gengur nú út á að gengið verði frá samningi um kaup á steinullarlínunni nú í lok þessa mánaðar og við fáum hana afhenta í haust. Nýtt hús fyrir framleiðslulínuna verði þá væntanlega risið og framleiðsla á nýjum einingum getur hafist í lok þessa árs,“ bætir Stefán Logi við.

Kostnaður við nýju bygginguna liggur ekki fyrir, enda hefur húsnæðið ekki verið að fullu hannað. Starfsmenn Límtré Vírnets við einingaframleiðsluna í Reykholti, eru nú sex talsins og er reiknað með að svipaður starfsmannafjöldi verði við nýja framleiðslulínu.

Fyrri greinÞór tapaði fyrir botnliðinu
Næsta greinEldsupptök líklega frá rafmagni