Ný stjórn Vinafélags Foss- og Ljósheima

Þann 2. apríl síðastliðinn var aðalfundur Vinafélags Foss- og Ljósheima haldinn. Félagið hefur verið starfrækt í 13 ár og starfar í nánu samstarfi við stjórnendur hjúkrunardeilda Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fjölgar félagsmönnum stöðugt.

Á aðalfundinum var ársskýrla félagsins birt og einnig var ný stjórn skipuð. Í henni sitja Birgir Jónsson, formaður og Esther Óskarsdóttir, gjaldkeri, meðstjórnendur eru Lísbet Níelsdóttir, María Óladóttir, Sædís Jónsdóttir og Þorvarður Hjaltason.

Á fundinum var félaginu afhent minningargjöf 100 þúsund krónur, frá börnum Einars Sigurðssonar og Ingibjargar Árnadóttur til minningar um þau hjónin.

Meginmarkmið félagsins er eins og áður að efla tómstunda- og afþreyingarstarf fyrir heimilisfólk hjúkrunardeilda HSU og auka möguleika þeirra á meiri tilbreytingu en ella væri og standa vörð um aðbúnað fólks á deildunum. Einnig er lögð áhersla að standa fyrir fræðslu um sjúkdóma og áhersluþætti sem snúa að eldra fólki.