Ný sprunga undir Almannagjá

Ný 10-14 metra djúp sprunga hefur fundist í Almannagjá á Þingvöllum eftir vorleysingar síðustu daga.

Í leysingum undanfarinna daga myndaðist lítil hola í göngustíginn í Kárastaðastíg efst í Almannagjá. Þegar starfsmenn þjóðgarðsins skoðuðu hana og ætluðu að lagfæra kom djúp gjá í ljós undir henni sem teygir sig til suðurs undir göngustígnum.

Gjáin er um 10-14 metra djúp og er á miðjum göngustígnum niður í Almannagjá. Búið er að smíða fleka yfir holuna og hefur girðing verið sett umhverfis hana.

Að sögn Einars Sæmundssonar, þjóðgarðsvarðar, mun þjóðgarðurinn skoða í framhaldinu hvernig göngustígurinn verður lagfærður og til hvaða varanlegu aðgerða verði gripið.

Þá verður samráð haft við yfirvöld almannavarna og leitað álits jarðvísindamanna hvort að orsakir fyrir því að sprungan hafi komið í ljós geti verið aðrar en vatnsrof í kjölfar leysinga undanfarinna daga.

Fyrri greinVilja kaupa hlut nágrannanna í Stórólfshvoli
Næsta greinFyrsta konan í formannsstólinn