Ný söguskilti í Hveragerði

Í sumar voru vígð tvö ný söguskilti í miðbæ Hveragerðis við Egilsstaði og Þinghúsið. Eru söguskiltin í bænum þar með orðin ellefu en öll gera þau góða grein fyrir þeirri ríku og merku sögu sem bæjarfélagið býr yfir.

Á Blómstrandi dögum var nýtt söguskilti afhjúpað og nú við Egilsstaði, gamla barnaskólann við Skólamörk. Á skiltinu er sögu hússins gerð skil og einnig því hverjir voru forvígismenn að byggingu þess. Það var Pjetur Hafstein Lárusson sem hafði veg og vanda af gerð skiltisins en hann sá um upplýsingaöflun, myndaleit og textagerð.

Fyrr í sumar var annað skilti afhjúpað við Þinghúsið, eða Skyrgerðina. Það skilti gerir merkri sögu þinghússins skil en húsið hefur hýst bæði þinghús sveitarfélagsins, skóla, skyrgerð, hótel, bíó, veitingahús og fleira. Um gerð þess skiltis sá Njörður Sigurðsson.