Ný sögunarmylla í Þjórsárdal

Settar hafa verið upp stórviðarsagir í nýju skemmunni á starfstöð Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal, bæði bandsög og tifsög. Nýja sögunarmyllan gjörbreytir möguleikum stöðvarinnar til framleiðslu á smíðaviði.

Þessa dagana er meðal annars unnið að því að vinna timbur í nýtt þjónustuhús sem rísa mun á næstunni í Laugarvatnsskógi.

Skemman nýja var reist í fyrrahaust og með henni færðist undir þak ýmis starfsemi sem fram að því hafði verið sinnt undir berum himni og í lélegum skúrum. Timburvinnslu verður ekki sinnt með góðu móti utan dyra á Íslandi og aðstöðuleysi hefur fram að þessu sett þessari starfsemi þröngar skorður í Þjórsárdal. Þar eru mikilr greniskógar sem komnir eru á það stig að sífellt meira er hægt að taka út úr þeim af flettingarhæfu efni. Því var algjörlega tímabært að koma upp sögunarmyllu á staðnum.

Í maímánuði voru sagirnar settar upp í skemmunni, báðar af gerðinni Logosol. Annars vegar er bandsög sem sagað getur svera boli eftir endilöngu og hins vegar svokölluð tifsög sem sagar allt að 18 sm svera stokka í mismunandi þykka planka og borð.

Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi og staðarhaldari í Þjórsárdal, segir að úr sverustu bolunum sem teknir eru úr skóginum fáist gjarnan nokkrar gerðir af smíðaefni. Með nýju aðstöðunni getur timburvinnsla farið í gang af fullum krafti í Þjórsárdal. Hingað til hefur mest verið unnið þar af óköntuðu efni, borðum sem fá að halda úthliðinni með berkinum og eru talsvert vinsæl í ýmiss konar klæðningar á þök og veggi. Nú gefst færi á að framleiða venjulegt kantað timbur eins og það sem fæst í byggingavöruverslunum.

Jóhannes segir að íslenska grenið líti mjög vel út og sé ekkert síðra en það sem fæst í búðunum af sama flokki. Hins vegar verði að koma í ljós hvernig verðið á því stenst samkeppni við innflutt timbur.

Frá þessu er greint á heimasíðu Skógræktarinnar

Fyrri greinHlynur og Alexandra sigruðu – Ástmundur fór holu í höggi
Næsta grein„Einfalt upplegg, með krosslagða fingur“