Ný slökkvistöð í Árnesi

Í gær var undirritaður kaupsamningur milli Brunavarna Árnessýslu (BÁ) og Búnaðarfélags Gnúpverja um kaup BÁ á nýrri slökkvistöð sem rísa á við Tvísteinabraut 2 í Árnesi.

Um er að ræða tæplega 500 fermetra iðnaðarhús og er hluti BÁ 123 fermetrar auk 48 fermetra millilofts. Slökkvistöðin afhendist fullbúin fyrir þá starfsemi BÁ sem fyrirhuguð er í Árnesi, aðstaða fyrir tvær bifreiðar, rekstrartengd tæki og starfsmannaðastaða.

Húsið er stálgrindarhús á steyptum sökklum, klætt með samlokueiningum. Fyrirtækið Landstólpi mun steypa sökklana og reisa húsið en búnaðarfélagið mun sjá um að fullklára húsið til afhendingar. Gert er ráð fyrir að húsið verði afhent fullbúið til slökkviliðsins þann 15. maí á næsta ári.

Í frétt frá BÁ segir að það sé ljóst að ný og fullkomin slökkvistöð verði mikil lyftistöng fyrir starfsemi Brunavarna Árnessýslu á svæðinu og mun án efa stuðla að auknu öryggi bæði íbúa og vegfarenda í þessum hluta uppsveita Árnessýslu.

Fyrri greinStofna danslistarskólann Artemis
Næsta greinStóra-Hildisey 1 snyrtilegasta býlið