Ný nálgun í að virkja ungt fólk frá vanvirkni til þátttöku

Glaðbeitt! Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Heiða Ösp Kristjánsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Mennta- og barnamálaráðuneytið skrifaði í gær undir samstarfssamning við fjölskyldusvið Árborgar. Markmið nýs samnings er að þróa verkefni sem miðar að nýrri nálgun á hvernig virkja má ungt fólk til þátttöku í samfélaginu eftir tímabil vanvirkni.

Verkefnið verður unnið í þverfaglegri samvinnu frístundaþjónustu, velferðarþjónustu og skólaþjónustu innan fjölskyldusviðs Árborgar. Í verkefninu verða nýttir styrkleikar frístundageirans í gegnum verkfæri hans til að virkja ungt fólk á aldrinum 16 – 25 ára til virkni og þátttöku. Helstu styrkleikar við þær áherslur og það vinnulag sem unnið er eftir í verkefninu er aðgengileiki ungs fólks að þjónustunni og að þeim er fylgt yfir alla þá þröskulda sem geta orðið á vegi þeirra á leið sinni til að vera öflugur þátttakandi í samfélaginu.

Önnur sveitarfélög horfa til Árborgar
„Það er búið að vinna ótrúlegt starf hér í Árborg þegar kemur að málum ungs fólks,“ segir segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Þessu sveitarfélagi hefur tekist hvað best á landinu að samtvinna skóla, félagsþjónustu og þetta starf og ná með því þeim árangri að þau eru farin að nota tómstundir og frístundir til að aðstoða börn sem eru að glíma við ýmsar áskoranir. Það er orðið slíkt að önnur sveitarfélög eru farin að horfa til
þess.“

Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkti verkefnið um 30 milljónir króna sem munu nýtast vel við þróun og upphaf verkefnisins. Verkefnið mun standa yfir í þrjú og hálft ár og i lok verkefnatímabilsins verður til afurð fyrir önnur sveitarfélög og/eða þjónustusvæði þar sem hægt er að aðlaga verkefnið að þörfum þeirra.

Fjóla, Ásmundur Einar og Heiða Ösp við borðið og fyrir aftan standa starfsmenn sveitarfélagsins, þau Sigþrúður Birta Jónsdóttir, deildarstjóri velferðarþjónustu, Ellý Tómasdóttir, forstöðumaður frístundahúsa og forvarnarfulltrúi og Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, deildarstjóri frístundaþjónustu. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn Bergsveinsson
Fyrri greinKeflavík sterkari í kuldanum
Næsta greinTrausti nýr formaður Bændasamtakanna