Ný líkamsræktarstöð opnar á Hellu

Gunnar og Viðja ásamt dóttur sinni, Antoníu. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Rangárfit, ný líkamsræktarstöð á Hellu, mun opna á næstu vikum. Eigendur stöðvarinnar eru G. Viðja Antonsdóttir og Gunnar Sigfús Jónsson, ásamt foreldrum Viðju, Antoni Páli Níelssyni og Ingu Maríu S. Jónínudóttur.

Viðja og Gunnar fluttu á Hellu í haust en hugmyndin að líkamsræktarstöðinni kviknaði eftir samtal Viðju við vinkonu hennar í lögreglunni á Hvolsvelli.

„Ég var að hvetja hana til þess að æfa sig meira og mæta í Crossfit Selfoss en henni fannst of langt að fara og talaði um hvað það væri svekkjandi að það væru ekki Crossfit tímar í boði á svæðinu, hún fílaði þá líkamsrækt. Þá kviknaði þessi hugmynd. Í framhaldi náði ég að smita Gunnar af þessu,“ segir Viðja.

Rangárfit verður líkamsræktarstöð í anda Crossfit, sem byggð verður upp á hóptímum. Markmiðið er að allir geti tekið þátt, óháð aldri og líkamsástandi. Æfingarnar verða lagaðar að getu hvers og eins.

„Það hafa allir tekið okkur virkilega vel og margir reiðubúnir að leggja hönd á plóg og aðstoða. Tilfinning okkar er að fólk bíði bara eftir að við opnum,“ segir Viðja en þau Gunnar stefna að því að opna í lok janúar, jafnvel fyrr.

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Instagram.

Frá þessu er greint í Fréttabréfi Rangárþings ytra.

Fyrri greinÞrettándagleði á Selfossi aflýst – Flugeldasýning á laugardaginn
Næsta greinLægðin í beinni