Ný jógastöð á Selfossi

Ný jógastöð, Jógaloftið, hefur hafið starfsemi við Austurveg 21 á Selfossi. Í Jógaloftinu er boðið upp á opna tíma og námskeið í Kundalini jóga eftir forskrift Yogi Bahjan.

Það er Dagmar Una Ólafsdóttir, jógakennari á Selfossi, sem rekur Jógaloftið. Að hennar sögn hefur Kundalini jóga jafnan verið nefnt jóga vitundarinnar en að iðka Kundalini jóga þýðir því í raun að vera vakandi, að rækta vitund okkar og finna okkur sjálf vaxa og styrkjast, meðvitaðri um okkar eigin innri styrk og orku. Þetta er mjög fljótvirkt, eflandi og umbreytandi form af jóga og hentar m.a. sérstaklega vel til að vinna gegn streitu og álagi.

Kundalini jóga kemur jafnvægi á innkirtlakerfi, taugakerfi og ónæmiskerfi auk þess að styrkja hugann og líkama og kenna okkur að finna innri styrk og ljós.

Hver Kundalini jógatími samanstendur af möntrum, líkamsstöðum, öndunaræfingum, handstöðum, einbeitingu augna, slökun og hugleiðslu. Það geta allir stundað Kundalini jóga.

Í kvöld kl. kl. 20 verður boðið uppá kynningarfund um Kundalini jóga og starfsemi Jógaloftsins, heitt te og spjall. Jógaloftið á Selfossi er staðsett í risi Gamla bankans við Austurveg 21, fyrir ofan Fischer setrið.

Fyrri greinÞrjú innbrot á sunnudagsmorgun
Næsta greinDavíð ráðinn til Höfuðborgarstofu