Ný Hamarshöll úr „föstum efnum“ sett á teikniborðið

Rústir Hamarshallarinnar í Hveragerði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á fundi sínum í gær að fara af stað með hönnun og útboð á nýrri Hamarshöll á grunni þeirrar sem fauk þann 22. febrúar síðastliðinn. Þar er lagt til að nýja höllin verði einangrað hús með burðarvirki úr stálgrind eða límtré og að húsið verði tilbúið til notkunar haustið 2023. Fulltrúar D-listans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Skipaður hefur verið hönnunarhópur til þess að gera tillögu að hönnun hússins og á starfi hópsins að vera lokið þann 15. ágúst næstkomandi. Í framhaldinu verður farið í alútboð á hönnun og byggingu nýrrar Hamarshallar.

Í hönnunarhópinn voru skipuð þau Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi, Jón Friðrik Matthíasson, byggingafulltrúi, Þorsteinn T. Ragnarsson, úr stjórn Íþróttafélagsins Hamars, Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs, Halldór Benjamín Hreinsson, varaformaður bæjarráðs, Andri Helgason, formaður menningar-, íþrótta- og frístundanefndar, Arnar Ingi Ingólfsson, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar, Hlynur Kárason, fulltrúi í skipulags- og mannvirkjanefnd og tveir fulltrúar D-listans, þær Aníta Líf Aradóttir og Alda Pálsdóttir.

Í greinargerð meirihluta Okkar Hveragerðis og Framsóknar kemur fram að upplýsingar frá Duol, framleiðanda gömlu Hamarshallarinnar, hafi verið ófullnægjandi og ekki hafi fengist mikilvægar upplýsingar um gæði dúksins, eða ástæðu þess að húsið féll í óveðrinu í vetur. Því sé rétt að Hveragerðisbær horfi á aðrar og varanlegri lausnir við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.

Setur allt íþróttalíf í Hveragerði í uppnám
Á bæjarstjórnarfundinum lýstu fulltrúar D-listans áhyggjum sínum yfir því að framkvæmdir vegna uppbyggingar hallarinnar væru ekki enn hafnar. „Ljóst er að ekkert íþróttastarf fer fram í Hamarshöllinni veturinn 2022-2023 og þá er einnig afar ólíklegt að svo verði veturinn 2023-2024. Að hönnunar- og framkvæmdatími taki eitt ár er algjörlega óraunhæft. Ef byggja á íþróttamannvirki úr límtré eða stálgrind þarf að breyta burði í grunninum ef á annað borð á að nota á sömu staðsetningu og stærð. Þessi ákvörðunarfælni um efni í nýja Hamarshöll setur allt íþróttalíf í Hveragerði í uppnám,“ segir í bókun fulltrúa D-listans sem eru enn þeirrar skoðunar á loftborin höll sé hagkvæmasta lausnin.

Meirihlutinn svaraði bókun D-listans og sagði að ákvörðunin sé tekin eftir ítarlega skoðun og upplýsingaöflun síðustu vikna og fundi með ýmsum fagaðilum. Hagkvæmast sé til lengri tíma er að ný Hamarshöll verði byggð úr föstum efnum. Slík hús hafi meiri notkunarmöguleika en loftborin hús, auk þess að vera traustari og henta öllum íþróttum. Áætlaðir framkvæmdatími sé raundæmi frá framkvæmdaaðilum.

Fyrri greinJöfnunarmark í uppbótartíma á Stokkseyri
Næsta grein170 fermetra ærslabelgur í Hveragerði