Ný flóðahermun kynnt í sveitarstjórn

Á fundi sveitarstjórnar Ásahrepps síðdegis í dag var fjallað ítarlega um aðgerðir og almannavarnir vegna mögulegra flóða í kjölfar eldgoss í Bárðarbungu.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn við lögregluna á Hvolsvelli, kom á fundinn fyrir hönd almannavarna á svæðinu og kynnti rýmingaráætlun, nýja flóðahermun í Þjórsá og Ytri-Rangá, og önnur möguleg viðbrögð vegna hugsanlegra náttúruhamfara vegna mögulegs eldgoss í Bárðarbungu.

Á fundinum var jafnframt farið yfir framkvæmd rýmingar og það svæði sem rýmt verður, auk annarra viðbragða almannavarna og sveitarstjórna vegna mögulegra flóða. Ný drög að sviðsmyndun flóðaherma voru kynntar á fundinum en sagði Sveinn að þar til búið væri að vinna úr þeim gilti eldri áætlun sem væri vel rýmileg. Nægur tími yrði til að rýma svæðið kæmi til þess, þar sem hlaupið er tæpan sólarhring niður farveg Þjórsár og enn lengur niður Rangána.

Að sögn Björgvins G. Sigurðssonar, sveitarstjóra Ásahrepps, var þetta mjög gagnlegur upplýsingafundur með Sveini.

„Það er greinilegt að almannavarnir halda vel utan um þessi mál og dyggilega að þeim unnið. Fundurinn með Sveini var einkar gagnlegur og ekki síst til hans boðað til að við værum með nýjar upplýsingar um viðbúnað fyrir íbúafund hér í Ásahrepp á morgun,“ sagði Björgvin.

Hann bætti við að fram hefði komið að líkur á slíku flóði væru afar litlar að mati almannavarna og sérfræðinga, en alltaf til staðar. „Verið er að endurmeta út frá nýrri flóðahermun hve þarf að rýma stórt svæði og þá ræddum við einnig um boðunarkerfi og fyrirkomulag upplýsinga til almennings og við rýmingu. Allir á umræddu svæði fá boðun þó þeir séu ekki inná rýmingarlista,“ segir Björgvin.

Almannavarnir munu standa fyrir opnum fundum í hverju sveitarfélagi þegar endanleg áætlun liggur fyrir.

Fyrri greinÓsátt við náttúrupassa ferðamálaráðherra
Næsta greinHeiðin og Þrengslin lokuð