Ný ferðaþjónustumiðstöð í miðbæ Selfoss

Davíð Lúther og Katrín Björk í miðbæ Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Ný ferðaþjónustumiðstöð, South Center, verður opnuð í haust í miðbænum á Selfossi. Þar verður veitt almenn upplýsingaþjónusta við ferðamenn og sala ferða um Suðurland og sérstök áhersla verður á nýsköpun og þróun ferðamöguleika frá Selfossi.

South Center er samstarfsverkefni nokkurra ferðaþjónustufyrirtækja á Selfossi og Davíðs Lúthers Sigurðarsonar, sem verður stjórnarformaður South Center. Davíð Lúther, sem er búsettur á Selfossi, var meðal annars stofnandi og framkvæmdastjóri stafrænu auglýsingastofunnar Sahara áður en hann hóf undirbúning South Center.

„Það er virkilega spennandi að taka þátt í uppbyggingunni hér á Selfossi með þeim kröftuga hópi sem stendur að miðbænum nýja,“ segir Davíð Lúther. „Hugmyndin er að byggja Selfoss upp sem miðstöð í ferðaþjónustu fyrir Suðurland með góðu framboði ferða og afþreyingar og öflugu markaðsstarfi.“

Skemmtileg vinna framundan
Katrín Björk Eyjólfsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri South Center en hennar bakgrunnur kemur helst úr verslunarrekstri bæði í Noregi og á Íslandi, en hún starfaði meðal annars hjá IKEA og The Pier. Katrín er nýlega flutt á Selfoss.

„Framundan er mikil, en skemmtileg vinna við að setja upp South Center í þessu fallega húsnæði ásamt því að hitta alla framtíðar samstarfsaðila á svæðinu. Ég hvet líka alla þá sem áhuga hafa á að koma sínum gististað, ferðþjónustu eða öðru skemmtilegu á framfæri að hafa samband við mig! Það má einnig nefna að þessa dagana erum við að auglýsa eftir starfsfólki inni á Alfreð og hvet allt áhugafólk um ferðamennsku sækja um,“ segir Katrín.

Joe & the Juice kveður
South Center verður til húsa að Austurvegi 2a, en veitingastaðurinn Joe & The Juice hverfur á braut, í tengslum við endurskipulagningu þess fyrirtækis. Birgir Bieltvedt, eigandi Joe & The Juice á Íslandi, segir að eftir að félagið dró sig út úr nýlegu útboðsferli á veitingastarfsemi í Leifsstöð, þar sem félagið hafði starfrækt nokkra staði um árabil, hafi verið ákveðið að leggja áherslu á veitingastaði þess á höfuðborgarsvæðinu. „Forsvarsmenn miðbæjarins sýndu okkur skilning og það er ánægjulegt að góð lausn fékkst í málið. Það er með trega sem við kveðjum Selfoss, að minnsta kosti í bili,“ segir Birgir.

Fyrri greinÆvintýralegt ferðalag að Fjallabaki
Næsta greinOpið hús hjá RARIK á föstudag