Ný brú yfir Eldvatn í undirbúningi

Vegagerðin er að undirbúa hönnun nýrrar brúar yfir Eldvatn en núverandi brú hefur sigið lítillega eftir að mikið landbrot varð undir austurenda hennar í stóra Skaftárhlaupinu í október síðastliðnum.

Brúnni var lokað á meðan hlaupið var í hámarki en hún var opnuð aftur fyrir létta umferð þann 10. nóvember síðastliðinn. Talið er að brotið gæti áfram undan henni, án þess að til stórs Skaftárhlaups kæmi. Brúin hefur verið vöktuð og lokuð fyrir umferð á nóttunni.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu en í fréttinni kemur fram að búast megi við hlaupi úr vestri katlinum á næsta ári.

„Það er ekki mikill tími til stefnu, það er ekki víst að þessi brú þoli annað hlaup þó smátt verði“, segir Guðmundur Valur Guðmundsson, brúarverkfræðingur hjá Vegagerðinni, í samtali við RÚV. „Það þarf önnur brú að taka við og það gæti orðið fyrr en seinna“.

Fyrri greinSveinbjörn íþróttamaður Bláskógabyggðar 2015
Næsta greinFSu strandaði í stórleik