Ný brú gæti farið í útboð í febrúar

Hönnun á nýrri brú yfir Múlakvísl er langt komin. Vonir standa til þess að hægt verði að bjóða brúna út á næsta ári og hefja jafnvel framkvæmdir í vor.

Það gæti þýtt að ný brú yrði vígð vorið 2014. Bráðabirgðabrú hefur verið yfir Múlakvísl síðan hlaup úr Kötlu sópaði þeirra gömlu í burtu í fyrrasumar.

Að sögn Svans G. Bjarnasonar, umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi, veltur þetta á því hvað fjárveitingavaldið gerir en samgönguáætlun kemur til endurskoðunar í vetur. Vantar 400 til 500 milljónir króna upp á fjárveitingu fyrir verkinu.

„Við vinnum út frá því að þessir fjármunir berist og hönnun er í fullum gangi. Ef við fengjum grænt ljós gæti verkið hugsanlega farið í útboð strax í febrúar eða mars,” sagði Svanur í samtali við Sunnlenska.

Talið er að ný brú kosti á milli 900 og 1.000 milljónir króna og þá með vegum og varnargörðum.