Ný bæjarhátíð í Þorlákshöfn

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Ný bæjarhátíð verður sett á laggirnar í Þorlákshöfn í ágúst og ber hún heitið Hamingjan við hafið. Hátíðin er byggð á góðum og traustum grunni Hafnardaga en verður öllu stærri í sniðum en forveri hennar og leggja bæði Sveitafélagið Ölfus og fyrirtæki sem tengjast Þorlákshöfn og sveitarfélaginu mun meira fjármagn til en hingað til hefur verið gert.

„Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst í kynningu á Sveitarfélaginu og ákveðið var að endurskoða bæjarhátíðina í kjölfarið og nýta sér þann byr sem er í seglunum. Tilgangur þessara áherslubreytinga er fyrst og fremst að auka framboð af menningu og dægradvöl fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss.

„Samhliða er horft til þess að stækka bæjarhátíðina, auka fjölbreytni, útvíkka áherslur og nýta hana til þess að kynna okkar góða bæ og Sveitafélagið Ölfus í heild sinni. Þannig viljum við höfða til fleiri gesta, bæði úr nágrannasveitafélögum sem og af höfuðborgarsvæðinu enda mjög stutt að fara og langflestir dagskrárliðir verða öllum að kostnaðarlausu.“

Hamingjan við hafið stendur yfir í sex daga, frá þriðjudeginum 6. ágúst og fram á sunnudagskvöldið 11. ágúst. Dagskráin verður þétt og með spennandi viðburðum fyrir alla fjölskylduna og áhersla lögð á að fjölskyldan geti notið lífsins saman á ólíkum viðburðum í höfuðborg hamingjunnar.

Fyrri greinLokað að Sauðleysuvatni í allt sumar
Næsta greinGlæsileg mörk og Selfoss upp í 2. sætið