Ný aðstaða við Seljalandsfoss í skipulagsferli

Seljalandsfoss. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Óvíst er hvort eða hversu mikið næst að lagfæra aðstöðu við Seljalandsfoss fyrir sumarið. Vegna mikillar umferðar við fossinn horfði til vandræða síðastliðið sumar.

„Auðvitað stefnum við að því að lagfæra aðstöðuna í sumar, koma fyrir nýjum bílastæðum og hafa gjaldskyldu á þeim. En við eigum erfitt með að gera mikið fyrr en breyting á aðalskipulagi er gengin í gegn“, segir Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra í samtali við RÚV.

Sveitarstjórn hefur samþykkt lýsingu á breytingum á aðalskipulagi fyrir svæðið í kringum Seljalandsfoss, nágrannafossinn Gljúfrabúa og gamla bæinn í Hamragörðum. Skipulagsbreytingarnar eiga eftir að fara í frekara umsagnar- og kynningarferli.

Í tillögunni er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir 150 einkabíla og 15 fólksflutningabíla á aurunum fyrir vestan núverandi veg í Þórsmörk. Í tillögunni sé gert ráð fyrir þjónustumiðstöð við Seljalandsfoss og breyttum og bættum gönguleiðum að báðum fossum og Hamragörðum.

Frétt RÚV

Fyrri greinSamstaða um kaup og kjör sveitarstjóra
Næsta grein86 milljóna króna miði í Samkaupum á Selfossi