Ný 500 fermetra leikskólabygging tekin í notkun

Leikskólinn Bergheimar.

Ný viðbygging við leikskólann Bergheima í Þorlákshöfn verður formlega tekin í notkun föstudaginn 14. mars næstkomandi. Hún er um 500 fermetrar að stærð og kostar um 250 milljónir króna.

Byggingin mun rúma tvær u.þ.b. tuttugu barna deildir. Þar með er ekki öll sagan sögð því til stendur að færa deild elstu barna leikskólans, sem síðustu ár hefur verið staðsett í grunnskólanum, í nýju leikskólabygginguna. Þá verður elsti hluti leikskólans ekki notaður sem deild frá næsta hausti en farið verður í endurbætur á honum.

Um þessar mundir eru um 80 börn á leikskólanum og verður sami fjöldi í honum fyrsta árið eftir að nýja byggingin verður tekin í notkun. Haustið 2015 verður svo ný deild tekin í rekstur, með yngri börnum og má gera ráð fyrir að þá fjölgi um allt að 20 börn í skólanum. Má því segja að börnum fjölgi um allt að 20 vegna nýju byggingarinnar.

„Auk fjölgunar barna verður þarna gjörbylting á aðstöðu kennara og skólastjórnenda,“ segir Gunnsteinn Ómarsson, sveitarstjóri í Ölfusi.

Því til viðbótar er gert ráð fyrir góðri aðstöðu fyrir sérkennslu og sérfræðinga, s.s. talmeina- og sálfræðinga. Fullkomið eldhús er í nýju byggingunni og gert er ráð fyrir því að hollur og góður heimilismatur verði eldaður á staðnum en fram til þessa hefur verið boðið upp á upphitaðan mat fyrir börnin.

Samhliða nýbyggingunni var ráðist í endurbætur og stækkun á leikskólalóðinni á árinu 2013. „Það hefur tekist ákaflega vel til við þá framkvæmd en við hönnun lóðarinnar var horft til náttúrulegra aðstæðna með það í huga að nægt rými yrði til fjölbreyttra nota í leik og hreyfingu,“ segir Gunnsteinn.

Lóðin hefur verið stækkuð verulega og þarfir hvers aldurshóps nemenda á leikskólanum verið hafðar að leiðarljósi. „Þarna er hver hluti lóðarinnar úthugsaður með hliðsjón af getu barnanna sem undirbýr þau enn frekar til að takast á við meira krefjandi viðfangsefni,“ segir Gunnsteinn.

Fyrri greinMargrét Ýrr hættir í vor
Næsta greinVarasamur ís á Ölfusá