Nútíminn kominn í loftið

Fréttavefurinn Nútíminn.is fór í loftið klukkan 6.59 í morgun. Ritstjóri Nútímans er Selfyssingurinn Atli Fannar Bjarkason.

Nútíminn er fréttavefur sem lítur vel út í öllum tækjum og segir fjölbreyttar fréttir af fólki. Fréttirnar eru yfirleitt stuttar, stíllinn knappur og yfirbragðið létt.

Atli er þrítugur, fyrrverandi fréttastjóri á Fréttablaðinu og ritstjóri Monitors. Hann stýrir útvarpsþættinum Laugardagskaffið á X977 og skrifar reglulega Bakþanka í Fréttablaðið.

Ásamt fréttum birtir Nútíminn pistla undir liðnum Raddir. Tónlistarkonan Alma Goodman ríður á vaðið með pistli frá Los Angeles. Á næstu misserum fáum við svo pistla frá Loga Pedro, Björgu Magnúsdóttur, Snæbirni Ragnarssyni, Hildi Sverrisdóttur, Braga Valdimari Skúlasyni, Þorsteini Guðmundssyni, Dóra DNA o.fl.

Fálki útgáfa ehf. rekur Nútímann en Atli Fannar er eigandi Fálka.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Viðar kominn yfir 20 mörk
Næsta greinHeiðupasta