„Nú er botninum náð“

Vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður aðeins einn sjúkrabíll með tveimur mönnum til taks á næturvöktum í Árnessýslu frá áramótum.

Í dag eru tveir bílar með fjórum sjúkraflutningamönnum á næturvöktum og sinna þeir stóru svæði, allri Árnessýslu auk þess sem sjúkraflutningamenn frá Selfossi eiga að vera til stuðnings og aðstoðar sjúkraflutningamönnum frá Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri.

Hermann Marinó Maggýarson, trúnaðarmaður sjúkraflutningamanna hjá HSu, segir í samtali við sunnlenska.is að þar á bæ hafi menn miklar áhyggjur af ástandinu.

„Ég er búinn að upplifa ýmislegt á mínum ferli sem sjúkraflutningamaður en nú er botninum náð. Það er hræðilegt að hafa bara einn sjúkrabíl mannaðan í ellefu tíma á sólarhring. Ríkisstjórnin segir að það verði að skera niður í heilbrigðisþjónustu en ekki í grunnþjónustu. Hvað eru sjúkraflutningar ef þeir eru ekki hluti af grunnþjónustunni?” spyr Hermann.

„Ég vil ekki vera sá sjúkraflutningamaður sem kemur of seint að alvarlegu slysi eða veikindum og þarf að horfa í augun á ættingjum, foreldrum eða vinum og útskýra að við séum of sein á staðinn af því að við höfum verið í Reykjavík með annan sjúkling og þurft að klára það fyrst,” segir Hermann.

Fram hefur komið að 30 milljónir vanti uppá til þess að hægt verði að halda úti núverandi þjónustu. „Við myndum öll taka yfirdrátt í banka upp á 30 milljónir til að bjarga lífi einhvers í fjölskyldunni,” segir Hermann og bætir því við að það sé erfitt að trúnaðarmaður sjúkraflutningamanna í Árnessýslu þessa dagana.

„En ég vinn með frábæru fólki og við gefumst ekki upp. Við skorum á sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi og þingmenn kjördæmisins til þess að leita allra leiða til að finna lausn á þessum vanda,” sagði Hermann að lokum.

Fyrri greinLeikfélaga Rangæinga æfir Góðverkin kalla!
Næsta greinÁformað að sameina heilbrigðisstofnanir