„Nóttin getur orðið löng“

Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, og varaformaður flokksins var hæstánægður eftir að fyrstu tölur voru birtar.

„Þetta eru frábærar tölur og þær staðfesta að nokkru leiti skoðanakannanirnar en auðvitað veit maður aldrei fyrr en talið hefur verið upp úr kössunum. Þetta eru fyrstu tölur og nóttin getur orðið löng en þetta er mjög efnilegt,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við sunnlenska.is. Hann bætti því við að hann óttaðist að þetta geti orðið erfið nótt fyrir Fjólu Hrund Björnsdóttur, sem situr í fimmta sæti listans og var inni eftir fyrstu tölur.

Sigurður Ingi segir að Framsókn hafi í upphafi stefnt á að ná þremur þingmönnum í kjördæminu. „Þegar listinn var settur saman í janúar var stefnan tekin á að tryggja þriðja þingmanninn pottþéttann inn og ég var algjörlega sannfærður um að það myndi ganga eftir. Síðan fóru skoðanakannanir að sýna betri og betri árangur og við fórum að gæla við að ná inn fjórum þannig að við erum mjög ánægð með þessar tölur.“

Varaformaðurinn segir að kosningabaráttan hafi verið góð í kjördæminu og allir hafi unnið gríðarlega mikla vinnu. „Kosningabaráttan var skemmtileg, lífleg og jákvæð og meðbyrinn eftir því.

Fari Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn er Sigurður Ingi tilbúinn að setjast í ráðherrastól. „Ég er allavega tilbúinn, varaformaður flokksins, en við skulum sjá til það eru formaðurinn og þingflokkurinn sem ráða því,“ sagði Sigurður Ingi léttur á brún í góðri stemmningu á sigurhátíð Framsóknarmanna í Hótel Selfossi í kvöld. „Þetta gæti orðið besta partíið hér í kvöld og vonandi verður það líflegt áfram.“

Fyrri greinX13: Talningu lokið – Páll Valur í uppbótarsætinu
Næsta grein„Mikil vonbrigði“