Notaði VSK-bíl í eigin þágu

Lögreglumenn á eftirlitsferð við Seljalandsfoss höfðu í liðinni viku afskipti af ökumanni og farþegum bíls á rauðum skráningarnúmerum, svokölluðum virðisaukanúmerum.

Í ljós kom að ökumaðurinn var að nota bifreiðina í eigin þágu. Hann var kærður fyrir að aka vsk-bifreið til einkanota.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að í liðinni viku var 41 ökumaður kærður fyrir hraðakstur. Einn þeirra var mældur á 150 km/klst., á Suðurlandsvegi austan við Hvolsvöll. Ökumaðurinn var sviptur ökurétti til bráðabirgða. Á laugardag var ökumaður mældur á 103 km/klst., á Suðurlandsvegi á Hellu þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst.

Lögreglumenn komu að 57 kærum í síðustu viku og 158 verkefnum sem eru af ýmsum toga eins og eftirliti með umferð, á ferðamannastöðum, skemmtistöðum auk forvarnaverkefna, aðstoð við borgarana og margt fleira.