Norskir fylkisþingmenn heimsóttu ströndina

Hópur fylkisþingmanna frá Vestfoldfylki í Noregi var í heimsókn á Íslandi um helgina og fara af landi brott í dag. Í gær fór hópurinn um Suðurland og lauk dagsferðinni á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Samverustund var í garðinum að Ránargrund á Eyrarbakka hjá Jónu Guðrúnu Haraldsdóttur og Birni Inga Bjarnasyni. Síðan var farið að Félagsheimilinu Stað og notið útsýnis af sjóvarnargarðinum. Svo var drukkið hátíðarkaffi hjá Björgunarsveitinni Björg í Félagsheimilinu Stað en gríðarlegt fjölmenni sótti kaffið sem var af bestu gerð.

Þá var haldið á Stokkseyri til Elfars Guðna Þórðarsonar, listmálara í Svartakletti í Menningarverstöðinni Hólmaröst. Skoðuð sýning Elfars sem nú stendur uppi og síðan farið að verkinu magnaða Brennið þið vitar.

Norðmennirnir voru mjög ánægðir með heimsóknina í strandþorpin og höfðu á orði að gaman væri að Elfar Guðni kæmi með málverkasýningu til Vestfold í Noregi.

Fyrri greinAukið flæði upplýsinga
Næsta greinSamvinna og sýning listnema á Sólheimum