Norrænn heilsumatseðill slær í gegn á Selfossi

Ida Sofia Grundberg og Emma Gullbrandson með Smoothie skál, sem njóta mikilla vinsælda á Vor. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýverið tók veitingastaðurinn Vor á Selfossi upp nýjan matseðil sem er sérstakur fyrir þær sakir að hann sækir innblástur sinn til Svíþjóðar og Danmerkur.

„Við ákváðum að breyta matseðlinum og bæta við meira af hollu úrvali. Við vorum líka mjög spennt fyrir smoothie skálunum sem eru orðnar vinsælar víða úti í heimi og voru ekki fáanlegar á Selfossi,“ segir Ida Sofia Grundberg, eigandi Vor, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrir þá sem ekki vita þá er smoothie skál extra þykkur smoothie (þeytingur) sem er borðaður með skeið. Smoothie skálin er svo skreytt með ávöxtum, hnetum og fleira ofan á.

„Við vorum allan tímann með okkar hugmyndir um ákveðnar breytingar og nýjungar og fórum svo til Svíþjóðar og Danmerkur til að leita að innblæstri og sjá nýjasta nýtt,“ segir Ida sem ferðaðist ásamt Emmu Gullbrandson, vinkonu sinni og rekstrarstjóra Vors, til fyrrnefndra landa í leit að innblæstri fyrir nýja matseðilinn.

Emma og Ida, sem eru sjálfar frá Svíþjóð, þræddu alla vinsælustu og bestu hollustustaðina á svæðinu. Systir Emmu rekur auk þess glæsilegan heilsustað í Helsingborg í Svíþjóð og hún sýndi hún þeim stöllum helstu hollustustaðina á svæðinu.

Fleiri nýjungar í vor
Að sögn Idu var það hvorki erfitt né tímafrekt að hanna nýja matseðilinn. „Það erfiða var kannski að við vorum með fleiri hugmyndir en það var pláss fyrir á matseðlinum. Sem þýðir að við munum koma með fleiri nýjungar í vor,“ segir Ida.

Ida lýsir nýja matseðlinum sem hollum og góðum þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. „Við erum með mikið vegan úrval, erum til dæmis alltaf með tvær súpur dagsins þar sem önnur er alltaf vegan/laktósafrí og án glútens. Við erum líka með vegan samloku, vefju, salat og sjeik. Allir djúsanir okkar innihalda bara hreina ávexti og ber. Engin viðbætt efni.“

Að sögn Idu hefur fólk tekið nýja matseðlinum mjög vel. „Nýju salötin okkar eru vinsæl en smoothie skálarnar fara aðeins hægara af stað, en þeir sem þora að prufa koma alltaf aftur. Svo eru margir að átta sig á súpunum, enda kostar súpa og brauð bara 990 krónur,“ segir Ida.

„Við erum alltaf með einhver tilboð í gangi. Eins erum við með afsláttarkort sem fastagestir eru duglegir að kaupa hjá okkur, bæði fyrir sig og unglingana sína. Smoothie skálar eru bornar fram með Vor granola sem við gerum að sjálfsögðu sjálf. Það er fátt hollara en smoothie skál,“ segir Ida að lokum.

Smoothie skál á Vor. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFormlegri leit að Rimu hætt
Næsta greinHurðarbak afurðahæsta kúabúið