Noroveirusýking á HSu

Staðfest hefur verið að niðurgangspestin sem kom upp á sjúkradeild HSu á Selfossi fyrir helgi stafaði af noroveirusmiti.

Deildin var sett í einangrun um leið og sýkingin kom upp á föstudag en farið var eftir leiðbeiningum frá sýkingavarnardeild LSH þó svo greining lægi ekki fyrir á þeim tíma.

Heimsóknir voru þegar takmarkaðar og einungis leyfðar í samráði við starfsfólk deildar og er svo enn.

Á deildinni, sem nú er 18 rúma deild, hafa alls 7 skjólstæðingar verið greindir. Að auki hafa fjórir starfsmenn smitast. Er þeim ráðlagt að halda sig heima í tvo sólarhringa eftir að einkenni eru horfin.

Reglulegir samráðsfundir eru haldnir með starfsfólki þar sem farið er yfir stöðuna en unnið er í nánu samstarfi við sýkingavarnardeild LSH, sýkingavarnastjóra HSu og aðra stjórnendur sem deildinni tengjast.

Noroveirur eru algengasta orsök fjöldasýkinga í meltingarvegi sjúklinga og starfsmanna á sjúkrahúsum en geta einnig brotist út á elliheimilum, í skólum, hótelum og skemmtiferðaskipum um allan heim.

Á heimasíðu HSu kemur fram að fjöldasýkingar á sjúkrahúsum geti leitt til lokana á deildum, stöðvun allra aðgerða nema bráðaaðgerða og meiri háttar truflana á starfsemi sjúkrahúsa.