Norconsult-Ísland opnar nýja skrifstofu á Selfossi

Tómas Ellert og Salóme á skrifstofu Norconsult á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Norconsult-Ísland hefur nú opnað nýja skrifstofu á Selfossi en verkfræðistofan býður upp á faglega verkfræðiráðgjöf og lausnir sem styðja við uppbyggingu innviða, sjálfbærni og nýsköpun.

„Við munum fara af stað og hitta Sunnlendinga í byrjun næsta árs og kynna fyrir þeim starfsemi félagsins en Norconsult er ein af stærri verkfræðistofum Norðurlandanna,“ segir Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur hjá Norconsult.

„Við hér á Íslandi eigum gríðarlega sterkt bakland í þeim sérfræðingum sem starfa hjá félaginu víðsvegar um heim þó aðallega í Evrópu. Íslandshlutinn er einnig skipaður sérfræðingum á ýmsum sviðum verkfræðinnar sem vitnað er í og hlustað er á, hvort sem um er að ræða byggingar-, iðnaðar-, rafmagns- eða vélaverkfræði,“ bætir Tómas Ellert við.

Fyrirtækið sinnir ýmiskonar hönnun, áætlanagerð, verkefnastjórnun og eftirliti í iðnaði og við byggingarframkvæmdir. Meðal annars sinnir Norconsult daglegu framkvæmdareftirliti fyrir Vegagerðina við byggingu nýju Ölfusárbrúarinnar. Þar hefur Norconsult eftirlit með vegagerð, steypu og stálvirkjum, meðal annars með framleiðslu stáls í Póllandi, ásamt eftirliti með vega- og jarðvinnuframkvæmdum og eftirlitsmælingum.

Norconsult er eitt stærsta ráðgjafarfyrirtæki á Norðurlöndum innan verkfræði, arkitektúrs og stafrænnar tækni. Hjá samstæðunni starfa um 7.000 manns og yfir 60 starfsmenn starfa hjá Norconsult-Ísland en á skrifstofunni á Selfossi eru tveir starfsmenn, þau Tómas Ellert og Salóme Grímsdóttir, byggingarverkfræðingur.

Fyrri greinDásamlegur aðalfundur — Látum verkin tala!