Nokkur ungmenni hafa stöðu sakbornings eftir íkveikju

Efri hæð hússins var alelda þegar slökkviliðið bar að garði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rannsóknin hefur leitt í ljós að um íkveikju var að ræða þegar eldur kviknaði í Hafnartúni á Selfossi á laugardagskvöld. Rannsókn málsins miðar vel.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að nokkur ungmenni hafi stöðu sakborninga í málinu og er rannsóknin unnin í samráði við barnaverndaryfirvöld.

Töluverður fjöldi skýrslna hefur verið tekinn af fólki vegna málsins. Rannsókn lögreglunnar hefur miðað vel og hefur lögregla góða mynd af atburðum.

Tilkynnt var um eld í húsinu á áttunda tímanum á laugardagskvöld og var efri hæð hússins alelda þegar viðbragðsaðila bar að garði. Slökkvistarf tók nokkurn tíma þar sem eldsmatur var mikill.

Við rannsókn málsins hefur Lögreglan á Suðurlandi fengið aðstoð frá tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og brunasérfræðingi frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun.

Hafnartún var byggt árið 1946. Húsnæðið er ónýtt eftir eldsvoðann. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinViðsnúningur í rekstri Samkaupa
Næsta greinHéraðsþing HSK haldið í Árnesi í þriðja sinn