Nokkur innbrot og þjófnaðarmál

Sex nýlegum ljóskösturum var stolið af hvítum Dodge Ram bifreið sem stóð fyrir utan Austurmörk 11 í Hveragerði um helgina.

Þjófnaðurinn átti sér stað á tímabilinu frá klukkan 18 á föstudag til klukkan 10 á laugardag. Tveir kastaranna voru framan á bifreiðinni og tveir á þaki hennar.

Þá var brotist inn í tvö hesthús við Norðurtröð á Selfossi og Hlíðskjálf, félagsheimili hestamanna, í síðustu viku. Engu var stolið en rótað til og minni háttar skemmdir unnar á dyrabúnaði. Ekki er vitað hver ásetningur þeirra var sem brutust inn í húsin.

Hver sá sem veitt getur upplýsingar um hver eða hverjir voru að verki í þessum tilvikum eru beðnir um að koma þeim til lögreglu í síma 480 1010.

GSM síma var stolið úr anddyri íþróttahúss Grunnskóla Hveragerðis síðastliðinn miðvikudag. Nokkur brögð hafa verið að því undanfarið að farsímar hafa glatast þá annað hvort á þann hátt að eigendur hafa týnt þeim og símarnir ekki skilað sér eða þeim hreinlega stolið þar sem þeir hafa verið skildir eftir í yfirhöfnum í fatahengjum eða annars staðar á glámbekk. Fátt er annað fyrir símaeigendur en að gæta síma sinna og þeim mun betur eftir því sem verðmæti símanna er meira.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku voru menn handteknir vegna gruns um innbrot í gáma og geymslur í Reykholti. Mennirnir viðurkenndu brot sín. Sýni var tekið af dísilolíu bifreiðarinnar sem þeir voru á. Olían reyndist vera lituð og verður ökumaður bifreiðarinnar kærður fyrir það.

Fyrri greinStarfsmaður verslunar kærður fyrir fjárdrátt
Næsta greinHótel Geirland er bær mánaðarins