Nógu djúpt í Landeyjahöfn

Dæluskip í Landeyjahöfn. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Nú er nægt dýpi í Landeyjahöfn til þess að Herjólfur komist þar inn, en óvíst er um siglingar vegna veðurs og ölduhæðar. Sanddæluskipið Dísa hefur dælt úr höfninni undanfarna daga.

Eftir það var höfnin grynnst 6 metrar á fjöru. RÚV greinir frá þessu.

„Það er í sjálfu sér nógu djúpt þarna núna, en skipstjórinn hefur náttúrulega alltaf úrslitavald í þessu“, segir Guðmundur Helgason hjá Vegagerðinni í samtali við RÚV.

Herjólfur hefur ekki siglt í Landeyjahöfn síðan um síðustu mánaðamót. Þá var aðeins 4 metra dýpi í höfninni, veður óhagstætt og þóttu líkur á að ekki yrði siglt þangað fyrr en með vorinu. Talsmenn Vegagerðarinnar sögðu þá að dýpkað yrði í höfninni ef líkur yrðu á norðanátt og stillum í einhvern tíma, um þrjá daga tæki að dýpka.

„Það var norðanátt og fremur stillt í síðustu viku og þá var dýpkað. En Eimskip er verktakinn, þar er ákveðið hvort siglt er í Landeyjar og skipstjórinn hefur úrslitavald“, segir Guðmundur.