Nóg að gera í ferðamannaflugi

Vegfarendur um Eyrarbakkaveg ráku upp stór augu í gærkvöldi þegar þrjár þyrlur flugu yfir Flóann og lentu á Selfossflugvelli.

Þarna voru á ferðinni þyrlur frá Norðurflugi með erlenda ferðamenn í reisu um Suðurland. Þyrlurnar lentu á Stokkseyri þar sem hópurinn fór út að borða á Við Fjöruborðið og millilentu svo á Selfossflugvelli til að taka bensín.

Birgir Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, segir mikið að gera við að þjónusta ferðamenn um þyrluflug en fyrirtækið býður upp á skoðunarferðir um Suðurland og nánast hvert á land sem er.

„Við erum mest á suðursvæðinu og bjóðum upp á mismunandi pakkaferðir sem eru mjög vinsælar hjá erlendum ferðamönnum,“ segir Birgir. „Vinsæl ferð fyrir svona hóp er t.d. að fljúga á Langjökul, þaðan á Gullfoss og Geysi og síðan inn í Landmannalaugar og Þórsmörk með viðkomu á gosstöðvunum í Eyjafjallajökli. Síðan er hægt að lenda hvar sem er til að borða, t.d. á Hótel Rangá, eða þá á Stokkseyri eins og við gerðum í gær.“

Birgir segir þennan ferðamáta njóta sífellt meiri vinsælda enda sé útsýnisflug í þyrlu mjög sérstök upplifun.

„Fólk upplifir þetta sérstaklega í gosfluginu hjá okkur. Þar höfum við flogið yfir jökulinn og síðan niður Gígjökul þar sem landslagið er ólýsanlegt eftir gosið. Það er alveg sérstök nálgun að skoða það í þyrlu og upplifunin verður varla áþreifanlegri.“