Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerði og forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram í bæjarstjórn Hveragerðis í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Njörður greinir frá þessu í færslu á Facebooksíðu sinni í kvöld.
„Það er þó nokkuð síðan ég tók þessa ákvörðun og ástæður þess að ég hef ákveðið að stíga til hliðar eru margar. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að einstaklingar eigi ekki að vera of lengi í pólitík og að regluleg endurnýjun í sveitarstjórn sé mikilvæg, þó hún megi ekki vera of ör. Jafnframt tel ég að nú sé heppilegur tímapunktur fyrir mig að draga mig í hlé eftir löng og samfelld ár í opinberu trúnaðarstarfi og sinna öðrum verkefnum sem ég hef áhuga á,“ segir Njörður.
Hann hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi undanfarin sextán ár, fyrst í bæjarstjórnarkosningum í Hveragerði árið 2010. Hann var varabæjarfulltrúi 2010 til 2014 og bæjarfulltrúi frá árinu 2014, auk þess sem hann var varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi á árunum 2017–2021.

