Níutíu börn í sumarlestri á Selfossi

Sævar Helgi var einn gesta sumarlesturs. Ljósmynd/Aðsend

Sumarlestri Bókasafns Árborgar á Selfossi lauk fimmtudaginn 27. júní síðastliðinn með hefðbundnum ratleik.

Sumarlestur er ókeypis lestrarhvetjandi námskeið fyrir krakka í 2. – 5. bekk. Þau mega vera yngri eða eldri en viðmiðið er að þau séu orðin stautfær í lestri. Í sumar voru tæplega 90 börn skráð til leiks en sumarlestur hefur verið haldinn í júní á hverju ári, frá árinu 1993, í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Síðastliðin fjögur ár hafa 80-100 börn verið skráð í þennan stærsta viðburð ársins hjá bókasafninu.

Börnunum hefur verið skipt í tvo hópa og hittast þeir einu sinni í viku allan júnímánuð þar sem börnin fá ýmist fræðslu eða skemmtun. Í hverri viku er síðan dregið úr happdrætti þar sem börnin fá skemmtilega vinninga í tengslum við þema sumarlestursins.

Markmið sumarlestrar er að viðhalda lestrarhæfni barna yfir sumartímann, örva áhuga þeirra á lestri skemmtilegra bóka og tengja heimsókn á bókasafnið við skemmtilegheit í huga barnanna.

Í sumar var þemað Risaeðlur og er barnadeildin skreytt í samræmi við það.  Starfsmenn sumarlestursins hafa lagt mikinn metnað í hönnun og vinnslu allra skreytinga í tengslum við sumarlesturinn. Skreytingarnar munu hanga uppi á veggjum barnadeildar fram að næsta sumarlestri fyrir þá sem vilja líta dýrðina augum.

Í ár fékk sumarlesturinn veglegan styrk frá tryggingafélaginu TM og kann starfsfólk bókasafnsins fyrirtækinu bestu þakkir fyrir.

Starfsmenn bókasafns Árborgar vilja nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim börnum sem mættu á sumarlesturinn hjá okkur í ár. „Það gladdi okkur mikið hversu stór hópurinn var og hve dugleg þau voru að mæta á fimmtudögum í júní til okkar með vini sína, frændur og frænkur og ekki síst gladdi það okkur hvað þau tóku margar bækur með sér heim að lesa. Við vonumst til að sjá þau sem flest áfram í allt sumar,“ segir í fréttatilkynningu frá bókasafninu.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinFjölbreyttum frjálsíþróttaskóla lokið
Næsta greinHarður árekstur á Eyrarbakkavegi