Níu sunnlensk verkefni fengu samfélagsstyrk

Krónan á Hvolsvelli. Ljósmynd/Krónan

Alls hlutu 27 verkefni samfélagsstyrki frá Krónunni sem úthlutað var á dögunum. Þar af voru níu verkefni á Suðurlandi.

Krónan styrkir árlega verkefni sem hvetja til hollustu og hreyfingar barna eða hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélagsins í nærsamfélögum Krónunnar. Samtals var sex milljónum króna ráðstafað úr styrktarsjóðnum að þessu sinni.

Þau sunnlensku verkefni sem hlutu styrk voru Pokastöð Árborgar til uppbyggingar á pokastöðvum í Árborg, Selfoss Karfa fyrir barnastarfið, knattspyrnudeild Selfoss til uppsetningar á Panna velli, handknattleiksdeild Selfoss fyrir barna- og unglingastarfið, Flugbjörgunarsveitin á Hellu fyrir nýjan björgunarbúnað, Regnbogahátíðin í Vík fyrir mat í menningarveislu hátíðarinnar, Fiðlufjör á Hvolsvelli fyrir tónlistarnámskeið barna, Kjötsúpuhátíðin á Hvolsvelli fyrir aðfangakostnað og Knattspyrnufélagið Ægir í Þorlákshöfn fyrir barnastarfið.

„Það var sönn ánægja að styrkja öll þessi góðu samtök og félög í ár og fór fjöldi umsókna fram úr björtustu vonum.  Það verður alltaf meiri og meiri áskorun að velja úr hópi umsækjenda ár hvert og var valið því afar erfitt í ár. Það er ljóst að það er mikill metnaður fyrir því að bæta heilsu og hreyfingu barna í samfélaginu öllu, sem og þeirra sem vilja hafa jákvæð áhrif hvað þessi mál varðar. Það er mikið gleðiefni og erum við stolt að geta verið þátttakandi í þessari þróun,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.