Níu klukkustunda björgunarleiðangur á Fjallabak nyrðra

Bíllinn var dreginn yfir ána og gekk það vandræðalaust. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftártungu og Flugbjörgunarsveitin á Hellu voru kallaðar út síðdegis í gær vegna ferðalanga á litlum jeppa sem höfðu fest bíl sinn í vaðinu yfir Dalakvísl á Fjallabaksleið nyrðri.

Tveir bílar frá Stjörnunni héldu inn á Fjallabak upp úr Skaftártungu og fljótlega var ljóst að færðin innúr væri orðin talsvert þung. Var þá ákveðið að boða Flugbjörgunarsveitina á Hellu til að fara vestan megin inn á Fjallabak á móti Stjörnumönnum til að tryggja bjargir á staðinn.

Á leið sinni um Eldgjá urðu Stjörnumenn varir við hreyfingu á snjó í brekkunni við hliðina á sér og hafði þar farið af stað lítið snjóflóð. Snjóþekjan hafði brostið og lítið flekaflóð fór af stað, en náði þó ekki niður í slóðann sem björgunarmenn voru að feta innúr. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarfólk frá Stjörnunni var svo komið á vettvang upp úr hálf níu í gærkvöldi eftir að hafa verið á ferðinni síðan hálf fimm. Áin sem jepplingurinn var fastur í var þá orðin talsvert bólgin af krapa og snjó og var ákveðið að bíða eftir björgum vestan megin frá áður en hafist yrði handa við að ná bílnum upp.

Tæpum klukkutíma síðar, eða um hálf tíu, voru björgunarmenn frá Hellu komnir á staðinn og var þá farið í að koma taug í bílinn. Dregin var taug austan frá, yfir ána og sett fast í bílinn að framanverðu og hann svo dreginn yfir ána sem gekk vandræðalaust.

Björgunarsveitunum sóttist ferðin til baka seint þar sem færð hafði þyngst og vöð á ám voru orðin erfið. Hellufólk var komið í hús langt gengin í eitt í nótt og Stjörnumenn voru ekki komnir til byggða fyrr en á öðrum tímanum í nótt. Þeir fylgdu ferðalöngunum niður af hálendinu þar sem þeir héldu ferð áfram í náttstað.

Fyrri greinÖnnur gul viðvörun
Næsta greinHarður árekstur í Ölfusinu