Níu fluttir á sjúkrahús eftir árekstur rútu og fólksbíls

Níu manns voru fluttir á sjúkrahús eftir að rúta og fólksbíll lentu í hörðum árekstri á Biskupstungnabraut ofan við Borg í Grímsnesi laust eftir klukkan ellefu í morgun.

Fimm sjúkrabílar frá Selfossi fóru á vettvang ásamt lögreglu og tækjabílum frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi og Laugarvatni. Beita þurfti kluppum til að ná ökumanninum út úr fólksbílnum en hann var einn á ferð.

Mik­il hálka er á Biskupstungnabraut en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi liggja tildrög slyssins ekki fyrir á þessari stundu.

Vegurinn var lokaður á meðan viðbragðsaðilar athafna sig á vettvangi en umferð var beint um Sólheimaveg.

UPPFÆRT KL. 13:45
Búið er að opna fyrir umferð um Biskupstungnabraut. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tuttugu manns í rútunni og slösuðust átta farþegar. Ökumaður fólksbílsins slasaðist mest og var fluttur á slysadeild í Reykjavík. Hinir átta voru minna slasaðir og voru þeir ýmist fluttir á slysadeild í Reykjavík eða á heilsugæsluna á Selfossi.

Fyrri greinBelgingur hefur opnað nýjan veðurvef
Næsta greinSelfyssingur opnar skyndibitastað í Árósum