Níu þátttakendur af sambandssvæði HSK

Dagana 9.-11. apríl sl. var ráðstefnan „Ungt fólk og lýðræði“ haldin í fimmta sinn og nú á Ísafirði. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var „stjórnsýslan og við – áhrif ungs fólks á stjórnsýsluna“.

Níu einstaklingar af sambandsvæði HSK tóku þátt í ráðstefnunni, en sjötíu einstaklingar sóttu ráðstefnuna. Þátttakendur voru ungmenni sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sínu sveitafélagi.

Þema ráðstefnunnar er mikilvæg ungu fólki sem mörg hver eru að ganga til kosninga í vor í fyrsta skipti. Ungmennaráð UMFÍ hafði veg og vanda af ráðstefnunni sem þótti takast með miklum ágætum.

Ályktun ungmenna frá ráðstefnunni:

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, haldin á Ísafirði 9.-11. apríl 2014, skorar á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þeim er varða ungmennin sjálf.

Við teljum að ungt fólk sé nægilega þroskað til þess að geta myndað sér skoðun sem vert er að taka mark á. Við teljum að mikilvægt sé að hlusta á skoðanir ungs fólks á meðan þær eru ómótaðar og frjálslegar, enda koma þau oft með áhugaverðar hugmyndir sem fara út fyrir hefðbundna hugsun.

Við viðjum efla upplýsingaflæði milli allra aldurshópa. Við hvetjum öll ungmenni til þess að stíga fram og sýna áhuga á málefnum líðandi stundar til þess að auka virðingu og traust til ungmenna um allt land. Við teljum nauðsynlegt að efla gagnrýna hugsun og sköpunargleði nemenda í skólum landsins.

Við viljum að ungmenni fái að taka virkan þátt í skipulagningu almenningssamgangna í okkar nærumhverfi. Samgöngumál eru hagsmunamál ungs fólks þar sem þau hafa áhrif á atvinnutækifæri, námsmöguleika og annað starf ungs fólks. Góðar samgöngur eru forsenda þess að ungt fólk geti stundað íþróttir og tómstundir óháð búsetu.

Við viljum að jafnréttis- og kynjafræði verði hluti af grunn- og framhaldsskólanámi á Íslandi. Við viljum fræðslu um fjármálalæsi og stjórnmál á öllum stigum skólakerfisins. Við lýsum yfir áhyggjum okkar af takmörkuðum möguleikum ungs fólks til að sækja sér fjölbreytta atvinnu þar sem það á við.

Við leggjum til að kosningaraldur í sveitastjórnarkosningum verði lækkaður niður í 16 ára. Með þeim hætti gæti ungt fólk tekið virkan þátt í stjórnmálum í sínu nærumhverfi til þess að auka áhuga ungs fólks á stjórnmálum. Myndi það stuðla að virkri þátttöku ungmenna síðar meir á stjórnmálum.

Við viljum hvetja ungmennaráð til að auka sýnileika þannig að ungt fólk geri sér grein fyrir því að þau geti borið ýmis málefni undir ráðin sem koma þeim svo á framfæri. Að eflt verði framboð á félagsstarfi fyrir ungt fólk á bilinu 16-25 ára, þá sérstaklega ungmenni á aldrinum 16-18 ára, með því að útbúa skýr markmið um ungmennahús á Íslandi.

Stofnaður verði sjóður sem ungmenni geta sótt um styrk í til þess að koma til móts við ungmenni varðandi aðgengi að frístundastarfi til dæmis vegna vegalendar og fjárhags.